Fréttir
Stórar landsæfingar sem þessi eru reglulega haldnar á vegum Landsbjargar. Ljósm. úr safni

Landsæfing björgunarsveita verður á laugardaginn á Borgarfjarðarsvæðinu

Slysavarnafélagið Landsbjörg stendur fyrir landsæfingu björgunarsveita næstkomandi laugardag. Áætlað er að æfingin standi frá klukkan 07 til 18. Hún mun fara fram í Hvalfjarðarsveit, á Akranesi og í uppsveitum Borgarfjarðar. Að stærstum hluta verður þó æfingin inn Hvalfjarðarströndina; inn við Vatnaskóg, Glym og mögulega upp við Akrafjall.

„Þátttakendur verða af öllu landinu, áætlað að um 300 manns taki þátt í æfingunni, þar af um 200 björgunarliðar. Fjöldi þeirra sem standa að æfingunni; undirbúningi, skipulagningu, fólk sem leikur sjúklinga og slasaða og sinna eftirliti á verkefnapóstum verður 50 til 100 manns. Það eru björgunarsveitir af Akranesi, Borgarnesi og uppsveitum Borgarfjarðar sem bera hitann og þungann af skipulagningu verkefnisins,“ segir Ásgeir Örn Kristinsson björgunarsveitarmaður frá Leirá í samtali við Skessuhorn.