
Stigabíllinn mátaður við nýjasta háhýsið
Í morgun mættu forsvarsmenn Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar; þeir Jens Heiðar Ragnarsson og Sigurður Þór Elísson, á stigabíl slökkviliðsins að Garðabraut 1. Umferð um götuna var stöðvuð á meðan. Að sögn Jens Heiðars voru þeir að kanna aðgengi fyrir stigabílinn að húsinu. Það er meðal annars gert áður en lokahönnun á lóð við húsið verður gerð. Mögulega þurfi að bæta við öruggu plani á lóðinni til að stigabíll geti athafnað sig nær húsinu, komi til rýmingar vegna eldsvoða. Almennt er það svo að eftir því sem bíllinn getur komist nær viðkomandi háhýsi, því fleiri er hægt að flytja í einu í körfunni. Standi stigabíllinn nálægt húsinu hefur hann 500 kílóa flutningsgetu í körfunni, eða fimm manneskjur, en minni flutningsgetu eftir því sem skjóta þurfi bómunni fjær bílnum. Í kjölfar þessarar vinnu segir Jens Heiðar að stefnt sé að öryggisúttekt á húsinu í næstu viku. Fljótlega í kjölfarið ættu fyrstu íbúar að geta flutt inn.