
Bæjarstjórn Akraness biðlar til Hvalfjarðarsveitar
Bæjarstjórn Akraness samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að óska eftir því við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að ráðist verði í könnun á kostum og göllum sameiningar Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar. Í bréfi, sem allir bæjarfulltrúar á Akranesi rita undir, segir að það sé samdóma álit bæjarfulltrúanna að á næstu árum muni; „okkur sem byggjum svæðið norðan Hvalfjarðar falla í skaut gríðarleg tækifæri til uppbyggingar og fjölgunar íbúa. Við sjáum þessa nú þegar merki, m.a. í auknum áhuga á uppbyggingu atvinnu á Grundartangasvæðinu og því að undirbúningur að lagningu Sundabrautar er nú loks kominn á góðan rekspöl. Það er á ábyrgð okkar sem nú stýrum sveitarfélögunum tveimur á svæðinu að marka stefnuna til framtíðar og tryggja að framtíðaruppbygging sveitarfélaganna verði farsæl, bæði fyrir okkur sem byggjum þau í dag og verðandi íbúa,“ segir orðrétt í bréfinu.