
Útvarp Akranes fer í loftið í lok nóvember
Saga Útvarps Akraness nær aftur til ársins 1988 þegar fyrstu útsendingarnar fóru fram. Síðan hefur Sundfélag Akraness haldið úti útvarpssendingum fyrstu helgina í aðventu ár hvert og á því verður engin undantekning í ár. Í tilkynningu frá útvarpsnefnd SA kemur fram að fjölmargir Skagamenn hefja formlegan jólaundirbúning þegar Útvarp Akranes hljómar og má því segja að Útvarpið komi með jólastemninguna til bæjarbúa.
„Í ár verður útvarpað helgina 28.-30. nóvember og er undirbúningur nú þegar kominn á fullt og dagskráin farin að mótast. Markmiðið er alltaf að bjóða uppá fjölbreytta dagskrá og hvetur útvarpsnefndin þá sem hafa frambærilegt efni og góðar hugmyndir að þáttum að hafa samband á netfangið utvarpakraness@gmail.com
Í útvarpsnefnd eru þau Guðrún Guðbjarnadóttir, Hjördís Hjartardóttir, Hjörvar Gunnarsson og Trausti Gylfason. Meðfylgjandi mynd er úr fórum Skessuhorns síðan 2017.