
Sveitarstjórn vill efla báða háskóla héraðsins með starfsemi á Hvanneyri
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum á fimmtudaginn ályktun með yfirskriftinni; „Háskólasamfélagið í Borgarbyggð - rannsóknir og nýsköpun á Hvanneyri.“ Í henni segir: „Háskólar á Íslandi standa á krossgötum. Bæði Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands hafa verið leiðandi í breyttu umhverfi og þróun menntunar og rannsókna á háskólastigi, hvor á sínu sviði. Skólarnir hafa átt með sér gott samstarf, ekki síst í undanfarin ár eftir stofnun nýsköpunarmiðstöðvarinnar Gleipnis fyrir fjórum árum. Í dag leigir Háskólinn á Bifröst húsnæði á Hvanneyri fyrir staðlotur ásamt skrifstofuhúsnæði fyrir starfsstöð sína á svæðinu. Sveitarstjórn Borgarbyggðar styður eindregið hugmyndir um frekara samstarf skólanna.“ Í ályktun sveitarstjórnar er ekki með beinum orðum lögð til sameining þessara tveggja háskóla, en hins vegar hvatt til sameiningar stofnana sem hafa aðsetur á Hvanneyri.