
Launaskrið og aukin fjárhagsaðstoð heggur í fjárhag Borgarbyggðar
Ljóst er að mikil hækkun launakostnaðar umfram skatttekjur á árinu og stóraukinn hreinn kostnaður sveitarfélagsins af fjárhagsaðstoð við flóttafólk hafa veruleg neikvæð áhrif á afkomu ársins hjá sveitarfélaginu Borgarbyggð. Á fundi sveitarstjórnar síðastliðinn fimmtudag var rætt hvernig ná megi tökum á þessari óheillaþróun. Fram kom að rekstrarniðurstaða A hluta Borgarbyggðar var neikvæð um 320 milljónir fyrstu sex mánuði ársins, en hún var til samanburðar neikvæð um 172 milljónir á sama tímabili á síðasta ári. Á fundi byggðarráðs hafði verið bókað um málið: „Mikilvægt er að hafa í huga að tekjustreymi Borgarbyggðar er jafnan mun meira á seinni árshelmingi og gildir það um alla helstu tekjustrauma; útsvar, framlag Jöfnunarsjóðs og aðrar tekjur, svo sem greiðslur frá ríkissjóði vegna samningsbundinna verkefna. Rekstrarniðurstaðan er 92 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir á tímabilinu. Lakari afkoma milli ára og frávik frá áætlun skýrist af hækkun launakostnaðar umfram hækkun skatttekna og lægri endurgreiðslur vegna fjárhagsaðstoðar við flóttamenn.“