
Sjötti ættliður í rakarastólnum hjá Hinna
Eins og sagt var frá í frétt Skessuhorns hélt Hinrik Haraldsson hárskeri á Akranesi upp á 60 ára starfsafmæli sitt á rakarastofunni við Vesturgötu 57 í síðustu viku. Hinni rakari hefur að mestu lagt skærin á hilluna en leysir þó Harald son sinn af einu sinni í viku. Hinni hefur haft hendur í hári fjölmargra á löngum starfsferli. Meðal annars hefur hann klippt sex ættliði sömu ættar í beinan karllegg. Hér er tíu mánaða gamall í stólnum drengur að nafni Sturlaugur, Haraldssonar, Sturlaugssonar, Haraldssonar, Sturlaugssonar, Haraldar Böðvarssonar og er hann því sjötti ættliður sem nýtur þjónustu Hinriks. Haraldur faðir Sturlaugs litla situr með hann. Á fyrstu starfsárum sínum fór Hinrik heim til Haraldar Böðvarssonar og klippti gamla manninn þar.