Fréttir
Páll S Brynjarsson

Barnó – Best Mest Vest 2025 er hafin

Ávarp framkvæmdastjóra SSV vegna Barnamenningarhátíðar

Það er mér sönn ánægja að kynna Barnó! – Barnamenningarhátíð á Vesturlandi, sem í ár er haldin í fyrsta sinn sem sameiginlegt verkefni allra sveitarfélaga í landshlutanum. Með þessu framtaki er stigið mikilvægt skref í átt að markvissari eflingu menningarstarfs fyrir börn og með börnum á Vesturlandi.

Á undanförnum árum hafa barnamenningarhátíðir verið haldnar til skiptis á þremur svæðum á Vesturlandi, en nú er blásið til víðtækara samstarfs sem nær yfir allt svæðið. Þessi breyting endurspeglar vaxandi áhuga á að gera börnum kleift að njóta menningar í sínu nærumhverfi, óháð búsetu. Nafnið Barnó! og slagorðin Best Mest Vest! voru valin í samkeppni meðal barna á Vesturlandi, og má með sanni segja að niðurstaðan endurspegli gleði, frumkvæði og samstöðu sem einkennir hátíðina.

Barnó! fer fram frá 9. október til 14. nóvember og spannar fjölbreytta dagskrá um allt Vesturland. Lögð er áhersla á þátttöku barna í sköpunarferlinu en jafnframt að gefa þeim og fjölskyldum þeirra tækifæri til að njóta menningar. Í dagskránni má finna viðburði á sviði sirkuslista, tónlistar, myndlistar, bókmennta og leiklistar, ásamt fjölmörgum smiðjum sem efla samstarf barna við menntastofnanir, menningarstofnanir og listafólk í landshlutanum.

Verkefnið er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands sem hefur það að markmiði að styrkja menningarlega sjálfbærni og efla skapandi starf í landshlutanum. Barnó! er skýrt dæmi um hvernig samvinna sveitarfélaga, skóla, listafólks og menningarstofnana getur skapað ný tækifæri í listum, sérstaklega fyrir börn. Verkefnið er þannig fjármagnað af Sóknaráætlun Vesturlands og með styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands.

Barnamenning er mikilvægur þáttur í samfélagsþróun. Hún stuðlar að sjálfstrausti, sköpunarhæfni og félagslegri þátttöku barna, auk þess sem hún byggir brýr milli kynslóða. Með Barnó er lagður grunnur að framtíð þar sem börn á Vesturlandi fá aukin tækifæri til að taka virkan þátt í menningu, og þar með móta sitt eigið samfélag.

Páll S. Brynjarsson

Framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi