
Árekstur og útafkeyrslur
Nokkur óhöpp urðu í umferðinni á Vesturlandi í vikunni sem leið. Rúta fór út af og hafnaði á hliðinni með 44 innanborðs. Ekki urðu alvarleg slys á fólki, en fjallað var um slysið í fréttum Skessuhorns. Þá lenti fólksbifreið í árekstri við rútu á Snæfellsnesi í vikunni. Þrennt var flutt af vettvangi með sjúkrabifreið en voru ekki talin alvarlega slösuð en nokkuð tjón varð á bifreiðunum. Bifreið hafnaði utan vegar á Vatnaleið á Snæfellsnesi en snjóþekja var á vettvangi og skilyrði til aksturs ekki með besta móti. Erlendir ferðamenn voru á bifreiðinni en voru ekki taldir alvarlega slasaðir. Fimm minniháttar umferðaróhöpp til viðbótar komu inn á borð lögreglu en öll án slysa á fólki en eitthvað um tjón á ökutækjum.