
Unnar tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna
Íslensku menntaverðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í byrjun nóvember. Þar er verðlaunað fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Sem fyrr verða verðlaun veitt í fjórum flokkum; fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, framúrskarandi kennslu, þróunarverkefni og iðn- eða verkmenntun. Búið er birta lista um þá sem eru tilnefndir. Ein tilnefning er á Vesturland að þessu sinni en hana hlýtur Unnar Þorsteinn Bjartmarsson húsasmiður sem starfar sem grunn- og framhaldsskólakennari við Grunnskóla Borgarfjarðar og hjá húsasmíðadeild Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Unnar hlýtur tilnefningu fyrir að kveikja áhuga nemenda á öllum aldri á iðn- og verknámi og leggja grunn að framtíðarstarfsfólki í greininni.
Unnar Þorsteinn hefur margoft í gegnum tíðina ratað í fréttir Skessuhorns. Hann og Eva Lind Jóhannsdóttir eiginkona hans hafa oftar en einu sinni hlotið umhverfisverðlaun Borgarbyggðar fyrir afar snyrtilega lóð og hús þeirra í Smátúni á Kleppjárnsreykjum. Þá hefur Unnar verið í fararbroddi við viðgerðir og varðveislu gamalla mótorhjóla og annarra ökutækja. Í þeim tilgangi að hýsa safnkost sinn hefur hann undanfarin misseri unnið við byggingu stærra safns á lóð sinni.
Síðasta vor má svo nefna frétt í Skessuhorni með fyrirsögninni; „Smíðakennsla fær nýtt líf undir berum himni í GBF.“ Grípum niður í fréttina: „Vegna endurbyggingar stærsta hluta skólahúsnæðis Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum var smíðastofan meðal annars rifin í upphafi verkefnisins. En það stöðvaði ekki Unnar Þorstein Bjartmarsson smíðakennara í að finna skapandi lausn til að kenna nemendum sínum. Hann ákvað að flytja smíðakennsluna út undir bert loft og nýta tækifærið til að skapa eitthvað sem mun gagnast skólanum í framtíðinni. Unnar, sem einnig kennir í Húsasmíðadeild Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, vinnur þannig að því að móta framtíðar smiði landshlutans og hvetur alla nemendur sína að tileinka sér verklega þekkingu í raunverulegu umhverfi. Nemendur GBF hafa tekið verkefninu fagnandi og sýna mikinn áhuga fyrir smíðunum.“
Fram kom að kennarar við skólann og ekki síður nemendur væru sammála um að þessi nýja nálgun í smíðakennslu væri bæði skemmtileg og gagnleg. „Þetta gefur nemendum dýrmæta reynslu sem mun nýtast þeim í framtíðinni,“ sagði Unnar og bætti við að verkleg kennsla sé mikilvægur hluti af menntun. Hann stefnir á að halda áfram að þróa verkefnið og tryggja að nemendur fái sem mest út úr smíðakennslunni, þrátt fyrir breytingar á aðstöðu. Með þessu framtaki sé ekki aðeins verið að kenna smíði heldur einnig að efla samvinnu, hugmyndaauðgi og frumkvæði nemenda.

