Fréttir
Myndin er tekin að morgni 3. mars 2025. Viðbragðsaðilar á aðalbryggjunni á Akranesi en skömmu áður höfðu öldur tekið með sér tvo bíla og tvo menn, sem báðum var bjargað, öðrum við illan leik. Ljósm. Guðbjörg Ólafsdóttir

Stórstreymt og vestan áhlaðandi í kvöld

Landhelgisgæslan vekur á því athygli að í dag, miðvikudag, er gert ráð fyrir suðvestan- og síðan vestan hvassviðri. Samhliða gera spár ráð fyrir talsvert mikilli ölduhæð úti fyrir sunnan- og vestanverðu landinu. Má því gera ráð fyrir talsverðum ölduáhlaðanda við ströndina suðvestanlands og inn á Faxaflóa, til dæmis á Akranesi. Sjór getur því mögulega gengið á land og súgur myndast í höfnum. Landhelgisgæslan hvetur til aðgæslu þar sem land stendur lágt við sjávarsíðuna, sem og á hafinu, og jafnframt að hugað verði að skipum og bátum í höfnum.

Meðfylgjandi mynd var tekin frá Jaðarsbraut á Akranesi að morgni 3. mars á þessu ári þegar svipaðar aðstæður sköpuðust á Akranesi; í vestan hvassviðri og áhlaðanda. Sjávarhæð var, eins og sést glöggt á myndinni, mjög mikil. Þá gekk sjór yfir hafnargarðinn á Akranesi, hreif með sér bíla og tveir menn lenti í höfninni. Aðstæður á háflóði klukkan 19 í kvöld verða svipaðar þó ekki sé gert ráð fyrir jafn mikilli ölduhæð og var í byrjun mars.

Áhrifin af hvassviðri og stórstreymi verða mest á utanverðu Reykjanesi og inn á Faxaflóa. Teikning: Landhelgisgæslan