Íþróttir
Sprækur hópur við upphaf æfingar klukkan 9 á mánudaginn. Ljósm. hj

Sprækir Skagamenn fagna tímamótum

Um þessar mundir er eitt ár síðan verkefnið Sprækir Skagamenn 60+ hóf göngu sína. Raunar er orðið ganga í þessu sambandi rangnefni um þetta hreystiverkefni sem fangað hefur hug fólks á virðulegum aldri að undanförnu. Verkefnið er afrakstur samstarfs Íþróttabandalags Akraness og Akraneskaupstaðar og er ætlað fólki 60 ára og eldra. Þrisvar í viku kemur fólk saman. Tvisvar eru æfingar sem einblína á styrk, þol, jafnvægi og samhæfingu og einn tími í bandvefslosun. Þá eru tvær aukaæfingar í mánuði þar sem kynntar eru aðrar fjölbreyttar æfingar fyrir þátttakendum. Þar má til dæmis nefna zumba, fimleika, jóga, badminton og keila svo eitthvað sé nefnt. Þá er haldinn á hverri önn fræðslufyrirlestur um almenna heilsu og heilbrigðar lífsvenjur.