Fréttir

Barnó byrjað í Dölunum

Sunnudaginn 5. október hófst barnamenningarhátíðin BARNÓ með stæl þegar enginn annar en Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur, leikskáld og Borgfirðingur af guðs náð, hóf leikinn með námskeiði í skapandi skrifum fyrir börn í Dalabyggð.

Ævar, sem flest börn þekkja bæði af bókum og af skjánum, hefur skrifað fjölda barnabóka, leikverk fyrir svið og útvarp, stuttar sögur og jafnframt stýrt vinsælum sjónvarpsþáttum. Á námskeiðinu deildi hann með krökkunum sögum af eigin ferli og útskýrði hvernig hugmyndir geta kviknað – hvort sem þær spretta úr veruleikanum eða hreinni ímyndun – og hvernig best sé að færa þær yfir á blaðið.

Börnin tóku virkan þátt í umræðum, hlógu og létu hugann reika í fyrstu lotu námskeiðsins. Í seinni hlutanum lagðist svo þögn yfir salinn þegar þau sökktu sér ofan í eigin sögur undir leiðsögn Ævars – svo hljótt varð að heyra mátti saumnál detta.

Að námskeiði loknu var bros á hverju andliti. Ævar gladdi þátttakendur enn frekar með bókamerkjum og veggspjöldum og áritaði bækur sem sum börnin höfðu með sér. Hver veit nema framtíðarhöfundur hafi verið meðal þeirra sem tóku þátt þennan dag?

Slík námskeið eru dýrmæt leið til að efla áhuga barna á bókmenntum og hvetja þau til skapandi hugsunar. Eitt af markmiðum BARNÓ er einmitt að bjóða börnunum upp á upplifanir sem eru ólíkar því sem þau kynnast dags daglega – og ef marka má fyrstu viðburðina, þá er hátíðin sannarlega farin af stað með glæsibrag.

Framundan eru m.a. námskeið á vegum Myndasögusamfélagsins, víkingaleikir á Eiríksstöðum, bangsadvöl á bókasafninu, hestafjör og break-dansnámskeið – fjölbreytt og skemmtilegt BARNÓ í vændum í Dölunum sem og annarsstaðar.

Barnó byrjað í Dölunum - Skessuhorn