
Iðnaðarsýning framundan í Laugardalshöllinni
Dagana 9. til 11. október verður Iðnaðarsýning 2025 haldin í Laugardalshöll í Reykjavík. „Iðnaður á Íslandi er afar fjölþættur og skapar um 41% útflutningstekna þjóðarinnar. Iðnaðarsýning 2025 endurspeglar þessa breidd og verður hún með stærri sýningum hér á landi en á annað hundrað fyrirtæki kynna vörur og þjónustu,“ segir í tilkynningu.
Ritsýn sf. heldur utan um skipulagningu sýningarinnar í samstarfi við Samtök iðnaðarins. Innan samtakanna eru um 1.700 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda er sýnir stærð iðnaðargeirans hér á landi. Á sýningunni verður meðal annars lögð áhersla á að kynna mannvirkjagerð, orku, innviði, vistvænar lausnir og hönnun. Sýningin mun höfða bæði til fagmanna og almennings og verða þar bæði öflug fyrirtæki sem hafa starfað um árabil á Íslandi og sprotafyrirtæki sem gætu orðið stórveldi framtíðarinnar.
Opið verður fimmtudaginn 9. október frá kl. 14.00 til 19.00, föstudaginn 10. október frá kl. 10.00 til 18.00 og laugardaginn 11. október frá kl. 10.00 til 17.00.