
Betur fór en á horfðist í rútuslysi í gær
Um kl. 17:30 í gær var hópslysaáætlun virkjuð vegna rútuslyss við austanverðan Seljafjörð á Snæfellsnesi. Samkvæmt fyrstu tilkynningu fór rúta með 44 manns út af þjóðveginum og var útkall björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila á stóru svæði sett í hæsta forgang. Einnig var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út. Fljótlega var síðan dregið úr viðbúnaði björgunarsveita sem áttu lengra á staðinn, svo sem úr Borgarfirði og Borgarnesi, þar sem sýnt þótti að færri en óttast var í fyrstu væru slasaðir.
Rútan lendir útaf veginum og hafnar á hliðinni, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Tveir farþegar voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Reykjavík, átta farþegar voru fluttir með sjúkrabílum og björgunarsveitarbílum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og þrír til aðhlynningar í Grundarfirði, en fjöldahjálparstöð var opnuð í Fjölbrautaskóla Snæfellinga til að hlúa að mannskapnum.
Ekki hafa verið gefnar út upplýsingar um tildrög slyssins en samkvæmt heimildum Skessuhorns var hvorki rok né hálka þegar óhappið varð. Ljóst þykir að bílbelti hafi bjargað því að ekki fór verr. Í rútunni var hópur erlendra ferðamanna; 42 farþegar auk bílstjóra og leiðsögumanns. Lögregla rannsakar tildrög slyssins.