Fréttir

Bækur ársins hjá MTH-útgáfu á Akranesi

Bókaforlagið MTH á Akranesi gefur út átta bækur á þessu ári; fjórar eru frumútgáfur á þýddum glæpasögum og fjórar bækur sem komu út undir merkjum Uppheima eru endurútgefnar sem hljóðbækur.

Nýr höfundur hjá MTH-útgáfu er Katarina Wennstam. Bókin Dánar konur fyrirgefa ekki er fyrsta bókin í nýjum bókaflokki sem kallast „Aldamótamorðin“. Sögusviðið er Stokkhólmur á því herrans ári 1896 og var sagan valin Glæpasaga ársins 2024 í Svíþjóð. Þess má geta að næsta bók í flokknum, Dauðs manns kona, hlaut sömu útnefningu nú í haust fyrir árið 2025. Þýðandi þessara verka er Friðrika Benónýsdóttir.

Blóraböggull og Skammarkrókurinn eru bækur eftir Sofie Sarenbrant og eru fjórða og fimmta bókin á íslensku um rannsóknarlögreglukonuna Emmu Sköld sem leysir sakamáli í Bromma í Stokkhólmi. Þýðendur eru Kristján H. Kristjánsson og Friðrika Benónýsdóttir. Á næsta ári eru tvær bækur eftir Sofie væntanlegar en þær heita Lygarinn og Verndarengillinn.

Hægri höndin eftir Mohlin & Nyström er fjórða sjálfstæða bókin um fyrrum FBI-fulltrúann John Adderley sem fer huldu höfði undir nýju nafni í Svíþjóð á flótta undan alræmdum eiturlyfjabarón.

Á árinu gaf svo MTH-útgáfa út sem hljóð- og rafbækur Minnesota-þríleikinn eftir Vidar Sundstøl sem kom út á árunum 2010-2012 í þýðingu Kristínar R. Thorlacius. Á næstu dögum birtist svo á Storytel hin sígilda bók Prakkarinn í þýðingu Hannesar Sigfússonar. Kristján Franklín Magnús leikari er rödd MTH útgáfu en hann les inn allar hljóðbækur forlagsins.

fréttatilkynning