Hópslysaáætlun virkjuð vegna rútuslyss á Snæfellsnesi-uppfært
Um kl. 17:30 var hópslysaáætlun virkjuð vegna rútuslyss við austanverðan Seljafjörð á Snæfellsnesi. Samkvæmt tilkynningu fór rúta með 44 farþegum útaf þjóðveginum og var útkall björgunarsveita á stóru svæði í hæsta forgangi. Einnig hefur þyrla Landhelgisgæslunnar verið kölluð út.
Uppfært kl. 18:26 Samkvæmt upplýsingum Skessuhorns hefur útkallssvæðið nú verið minnkað sem bendir til þess að slysið sé ekki eins alvarlegt og í fyrstu var talið.
Uppfært kl. 19:35 Tveir farþegar úr rútunni voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Reykjavík og átta farþegar voru fluttir með sjúkrabílum og björgunarsveitarbílum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Fjöldahjálparstöð var opnuð í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hafa aðrir farþegar rútunnar verið fluttir í fjöldahjálparstöðina til aðhlynningar. Þó ekki liggi fyrir ástand þeirra er fluttir voru á sjúkrastofnanir segir Jón Þór þó að í augnablikinu virðist sem betur hafi farið en óttast var í fyrstu. Hann segir að aðgerðum björgunarsveita á vettvangi sé lokið en segist engar upplýsingar hafa um tildrög slyssins.