Fréttir
Þetta var mikið högg fyrir samfélagið en Borgarnes var kannski fjórðungur af þeirri stærð sem það er í dag, skrifar Bjarni. Ljósmynd: Þorleifur Geirsson

Minnist bróður síns og frænda sem fórust vegna sama bílsins

Bjarni Kristinn Þorsteinsson í Borgarnesi rifjar upp á FB síðu sinni að í dag, 5. október, hefði ástkær bróðir hans Unnsteinn Þorsteinsson eldri, orðið 80 ára hefði hann lifað. Unnsteinn lést af slysförum aðeins tvítugur að aldri 11. desember 1965. „Þá daga voru og grúfðu yfir Borgarnesi og í hugum fólks dimmir dagar því tveir miklir efnismenn höfðu farist af slysförum á sama djöfulsins olíubílnum með örfárra daga millibili. Þetta voru Ragnar Guðbrandsson 19. nóvember og Unnsteinn Þorsteinsson 11. desember. Var þetta mikið högg fyrir samfélagið en Borgarnes var kannski fjórðungur af þeirri stærð sem það er í dag,“ rifjar Bjarni upp. Ragnar Guðbrandsson var 44 þegar hann lést og lét eftir sig eiginkonu og einn son.

Unnsteinn og Ragnar voru náskyldir, en þeir voru þremenningar. „Blessuð sé minning þeirra frændanna. Þessir atburðir eru mér í fersku minni þó ég hafi einungis verið 6 ára gamall og ég trega yndislegan bróður sem var mér afskaplega góður og umhyggjusamur. Einungis sex dögum eftir fráfall hans fæddist foreldrum mínum drengur sem skýrður var Unnsteinn og hann blessaður var sem skært ljós í eymd þessara daga fyrir 60 árum síðan, og enn þann dag í dag. Mikið afskaplega þótti mér þá og þykir enn vænt um hann blessaðan og ég held að það eigi við um alla sem honum kynnast. Ég vil fá að þakka sérstaklega þremur mönnum sem enn eru hér á meðal vor fyrir það hvaða þeir voru mér, krakkaræflinum, góðir eftir þetta. Þetta eru Konráð Andrésson, Sæmundur Sigmundsson og Sigmundur Halldórsson sem bar mig á örmum sér og samfélagið allt í Borgarnesi einnig. Látum okkur öllum þykja vænt hvort um annað og góðar stundir,“ skrifar Bjarni Kristinn Þorsteinsson.

Þess má að lokum geta að ákveðið var að umræddur Bedford olíubíll sem tengdist andláti beggja þessara mætu Borgnesinga yrði rifinn. Hann var álagabíll, jafnvel einnig áður en hann kom fyrst í Borgarnes, og vildu menn ekki að gert yrði við bílinn eftir seinna banaslysið.