Íþróttir
Byrjunarlið ÍA. Ljósm. Jón Gautur Hannesson

Fimmti sigurinn í röð og Skagamenn nálgast markmiðið

Karlalið ÍA í Bestu deildinni í knattspyrnu hélt til Eyja í gær og spilaði þýðingarmikinn leik í þræsingsvindi á Hásteinsvelli gegn ÍBV. Ferðin var til fjár í ljósi 2-0 sigurs gestanna sem með þessum úrslitum eru langt komnir með að tryggja veru sína í deild þeirra bestu á næstu leiktíð. Þetta er þó engan veginn geirneglt m.a. í ljósi þess að Vestri á leik til góða í dag gegn KA. Þetta var fimmti sigur Skagamanna í röð sem á einhvern undraverðan hátt hafa stigið upp úr öskustónni í haust. Nú á liðið tvo leiki eftir af tímabilinu. Frá botni er stigatalan nú þannig að KR hefur 25 stig, Afturelding 26, Vestri hefur 27 og ÍA 31. Síðustu leikir Skagaliðsins verða útileikur gegn KA sunnudaginn 19. október en lokaleikurinn verður spilaður gegn Aftureldingu á Akranesi laugardaginn 25. október.