
Skúrinn undirbýr starfsemi á Breiðinni
Í Fab Lab smiðjunni á Breið á Akranesi er nú í undirbúningi áhugavert verkefni. Á annarri hæð gamla fiskvinnsluhússins hefur hópur karla frá því í vor undirbúið verkefni sem nefnist einfaldlega Skúrinn. Vélar til trésmíða og allskyns handverks eru nú komnar á svæðið og verið að innrétta fyrir starfsemina. Valdís Fjölnisdóttir er framkvæmdastjóri Breiðar þróunarseturs sem hýsir starfsemina: „Skúrinn er stofnaður af Breið þróunarfélagi í samstarfi við Akraneskaupstað. Skúrinn er undir verkefni Fab Lab smiðju Vesturlands, sem var markmiðunum með stofnun Breiðar fyrir nokkrum árum síðan. Akraneskaupstaður styður fjárhagslega við Fab Lab smiðjuna og þar með Skúrinn, sem verður fyrst í stað opinn fyrir karlmenn. Þar mun þeim gefast staður og stund til að hittast, spjalla og vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum sem þeir sjálfir ákveða. Þar munu þeir skiptast á þekkingu og gefa til samfélagsins í leiðinni. Markmið verkefnisins er að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karlmanna verður í fyrirrúmi, þar sem þeir halda sér við líkamlega, andlega og félagslega,“ segir Valdís.