
Skúrinn undirbýr starfsemi á Breiðinni
Í Fab Lab smiðjunni á Breið á Akranesi er nú í undirbúningi áhugavert verkefni. Á annarri hæð gamla fiskvinnsluhússins hefur hópur karla frá því í vor undirbúið verkefni sem nefnist einfaldlega Skúrinn. Vélar til trésmíða og allskyns handverks eru nú komnar á svæðið og verið að innrétta fyrir starfsemina. Valdís Fjölnisdóttir er framkvæmdastjóri Breiðar þróunarseturs sem hýsir starfsemina: „Skúrinn er stofnaður af Breið þróunarfélagi í samstarfi við Akraneskaupstað. Skúrinn er undir verkefni Fab Lab smiðju Vesturlands, sem var markmiðunum með stofnun Breiðar fyrir nokkrum árum síðan. Akraneskaupstaður styður fjárhagslega við Fab Lab smiðjuna og þar með Skúrinn, sem verður fyrst í stað opinn fyrir karlmenn. Þar mun þeim gefast staður og stund til að hittast, spjalla og vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum sem þeir sjálfir ákveða. Þar munu þeir skiptast á þekkingu og gefa til samfélagsins í leiðinni. Markmið verkefnisins er að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karlmanna verður í fyrirrúmi, þar sem þeir halda sér við líkamlega, andlega og félagslega,“ segir Valdís.
Blaðamaður Skessuhorns leit við í Skúrnum síðastliðinn fimmtudag. Þar var um tíu manna hópur að störfum. Var verið að undirbúa innréttingar í aðdraganda þess að Skúrinn verði opnaður síðar í október. Umsjón með verkinu hefur verið í höndum þeirra Þráins Sigurðssonar vélstjóra, Guðmundar Kristjánssonar vélfræðings, Þorgils Sigurþórssonar og Sigurgeirs Sveinssonar sem þar til í vor var yfir trésmíðadeild FVA. Allir leggja þeir þó áherslu á að verkefnið sé unnið í góðri samvinnu allra sem að undirbúningi hafa komið.
Leitað í smiðju Mosfellinga
Við undirbúning verksins leituðu karlarnir á Akranesi í smiðju Mosfellinga og hyggjast nýta fræðslu og leiðbeiningar þaðan. Við Litluhlíð 7a í Skálatúni hefur frá árinu 2020 verkefnið Karlarnir í Skúrunum verið í gangi. Félag var í formlega stofnað í upphafi með samþykkt laga og kosningu stjórnar. Mosfellingar höfðu áður leitað fyrirmyndar m.a. til Ástralíu og Írlands og hafði RKÍ aðkomu að verkefninu. Tilgangur starfsins var og er að auka lífsgæði félagsmanna, einkum eldri karlmanna, í gegnum handverk og samveru og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og neikvæðum afleiðingum hennar og skapa þeim vettvang til að hittast á þeirra eigin forsendum. Verkefnið í Mosfellsbæ hefur gengið vel.
Karlarnir í Skúrnum á Akranesi segja að eftir sé að semja lög fyrir félagið. Þá muni hver og einn þátttakandi ákveða hvað hann vilji smíða eða vinna í höndunum, en vélakosturinn verður fyrst í stað hugsaður fyrir trésmíði. Járnsmíði muni þó vafalítið bætast við verkefnin enda eru margir af þeim sem undirbúa opnun Skúrsins með áratuga reynslu á sviði vélvirkjunar og tengdra starfa. Þá segja þeir að opnunartími verði ákveðinn í nánu samstarfi við Fab Lab smiðjuna. Gert er ráð fyrir að menn geti mætt á opnunartíma hússins, en skilyrði verður þó sett um að alltaf verði að lágmarki tveir sem vinni þar í einu.

Á að vera gott að eldast
Verkefnið Gott að eldast var hrundið af stað af Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og snýst um að finna úrræði í samfélaginu til að auka félagslega virkni eldra fólks. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Heilbrigðisstofnun Vesturlands urðu aðilar að verkefninu og voru Líf Lárusdóttir og Laufey Jónsdóttir ráðnar til að fylgja verkefninu eftir. Vinna þeirra snýst um þá þjónustu sem veitt er í sveitarfélögum og stendur eldra fólki til boða og gengur út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum og flétta vandlega saman þeim þáttum sem ríkið sér annars vegar um og sveitarfélögin hins vegar. Lögð er áhersla á að auka virkni eldra fólks í samfélaginu með því að finna aukin úrræði fyrir þann aldurshóp.
„Verkefnið Skúrinn fellur þannig beint að þeim markmiðum okkar. Í Skúrinn eiga karlar sem ekki eru í virkni að geta leitað. Í upphafi verður markhópurinn sextíu ára og eldri en það gæti breyst og einnig að Skúrinn verði líka fyrir konur og yngra fólk,“ segir Laufey Jónsdóttir í samtali við Skessuhorn. Hún bætir því við að gerðar hafi verið kannanir á virkni eldra fólks í samfélaginu. „Hér á Akranesi er stór hópur fólks ekki í virkni. Sumir vilja taka virkari þátt í samfélaginu og ætla að verða með meðan aðrir eru sjálfum sér nægir með verkefni. Fólk hefur alltaf val,“ segir Laufey.
