
Magnaður sigur Skagaliðsins í fyrsta leik í Bónusdeildinni
Í gærkveldi hófst keppni í Bónus deild karla í körfubolta með fjórum leikjum. KR sigraði Íslandsmeistara Stjörnunnar, Álftanes rúllaði yfir Ármann og Keflavík sigraði ÍR. Nýliðar ÍA fengu Þór Þorlákshöfn í heimsókn. Leikurinn var spilaður í Íþróttahúsinu við Vesturgötu, en ráðgert er að næsti heimaleikur liðsins verði spilaður í framtíðar húsnæði þess í nýja íþróttahúsinu við Jaðarsbakka, en þessa dagana er verið að leggja lokahönd á framkvæmdir innanhúss. Áhorfendur fjölmenntu á pallana við Vesturgötu og ljóst frá upphafi að stemningin yrði góð. Um fjögur hundruð gestir voru komnir mættir hálftíma fyrir leik og létu vel í sér heyra; sköpuðu skemmtilega stemningu með Skagaliðinu sem nú var í fyrsta skipti í aldarfjórðung að spila í efstu deild.