
Barist verður um embætti varaformanns Miðflokksins
Nú hafa þrír alþingismenn tilkynnt um framboð til varaformanns Miðflokksins, en nú í morgun tilkynnti Ingibjörg Davíðsdóttir þingmaður Norðvesturkjördæmis um framboð sitt og síðar í dag einnig Snorri Másson. Áður hafði Bergþór Ólason gert slíkt hið sama og gott betur, sagði af sér sem formaður þingflokks til að skapa sér betri tíma til annarra starfa. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson býður sig einn fram til formanns en kosið verður á landsþingi um aðra helgi.
Ingibjörg segir í tilkynningu að undanfarnar vikur hafi hún fengið fjölmargar áskoranir um að gefa kost á sér í embætti varaformanns. „Eftir umhugsun og samtal við fjölmarga flokksmenn og áskoranir úr öllum landshlutum hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína til embættisins í þágu flokksins,“ segir hún.
Ath! Fréttin var uppfærð eftir að framboð Snorra Mássonar bættist við síðar í dag.