Fréttir
Tæknin var notuð til að eiga samskipti við nemandann á heflinum og leiðbeina honum um það sem betur mátti fara. Hér er heflað á móts við Kjalvararstaði í Reykholtsdal. Ljósm. Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Sextán veghefilstjórar lærðu réttu handtökin

Um sjö þúsund kílómetrar af íslenska þjóðvegakerfinu, eða um 54% þess, eru malarvegir. Því er mikilvægt að viðhaldi þeirra sé sinnt af fagmennsku og þekkingu. Vegagerðin stendur reglulega fyrir námskeiðum fyrir veghefilstjóra og var eitt slíkt haldið í byrjun júní á Hótel Varmalandi í Borgarfirði. Í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar er sagt frá því. Á námskeinu komu saman veghefilstjórar og verkstjórar af landinu öllu til að efla færni sína í viðhaldi malarvega og kynna sér nýjustu verklagsreglur og aðferðir við heflun. Markmið námskeiðsins var að tryggja að heflun vega væri unnin á samræmdan hátt, með öryggi í fyrirrúmi og með það að leiðarljósi að malarslitlög endist sem lengst.