
Sálmurinn um blómið í flutningi Jóns Hjartarsonar
Leikgerð af bók Þórbergs Þórðarsonar; Sálminum um blómið, verður frumsýnd á fjölum Sögulofts Landnámssetursins í Borgarnesi laugardaginn 4. október í túlkun Jóns Hjartarsonar leikara og rithöfundar. Jón hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2021 fyrir handrit sitt að ljóðabókinni Troðningar. En hann er einna þekktastur sem leikari og hefur leikið í kringum eitt hundrað hlutverk á ferli sínum. Margir muna túlkun hans á ofvitanum Þórbergi á sínum tíma í rómaðri uppfærslu í Iðnó í leikgerð Kjartans Ragnarssonar. Það er einmitt Kjartan sem hefur nú fengið Jón til að flytja eigin túlkun á þessari vinsælu sögu Þórbergs, Sálminum um blómið. Á aldarafmæli Þórbergs gerði Jón leikgerð af bókinni fyrir sveitunga skáldsins, Leikfélag Hornafjarðar. Það verk var einnig sett upp hjá Leikfélagi Selfoss. Enn fremur gerði Jón útgáfu af Sálminum fyrir útvarpsleikhúsið.