Fréttir
Þekkt mynd frá Ferjukoti. Hún sýnir feðgana Þorkel og Magnús Fjeldsted með fisk eftir netaveiðar í Hvítá. Ljósm. Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri.

Veiðifélag Þverár segir upp samningi um uppkaup netalagna

Árið 1990 var gert samkomulag milli Veiðifélags Hvítár í Borgarfirði og samtals sjö veiðifélaga í hliðarám Hvítár um leigu á réttinum til netaveiða allt frá ósi að ármótum Reykjadalsár. Í þessu samkomulagi fólst að greitt væri fyrir að netin yrðu ekki lögð. Þetta var gert með það að markmiði að sá lax sem annars yrði veiddur í net gengi óáreittur í hliðarárnar og myndi auka þar stangveiði. Veiðifélögin sem hafa staðið að þessum samningi undanfarin 35 ár eru Andakílsá, Gljúfurá, Gufuá, Norðurá, Þverá, Grímsá og Flóka. Hafa þessir samningar verið endurnýjaðir af og til allar götur síðan, en hafa undanfarin ár verið uppsegjanlegir hvert ár fyrir 1. október. Nú hefur Veiðifélag Þverár sagt upp samningi við netabændur vegna netaveiði veiðisumarið 2026. Því er enginn samningur í gildi og fyrirséð að netabændur munu að óbreyttu leggja net sín að nýju.