Fréttir
Fjölmargir voru viðstaddir þegar björgunarbáturinn Jón Gunnlaugsson var formlega vígður og honum gefið nafn á sjómannadaginn árið 2017. Báturinn hafði verið keyptur notaður erlendis frá. Ganghraði bátsins er hins vegar helmingi minni en nýrra og öflugra björgunarskipa. Ljósm. úr safni Skessuhorns

Vilja að Björgunarfélagið eignist öflugt björgunarskip

Á aðalfundi Sæljóns, félags smábátaeigenda á Akranesi síðastliðinn föstudag, var samþykkt áskorun til Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar, Faxaflóahafna, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og nærsamfélagsins alls um að styðja við og efla Björgunarfélag Akraness í mikilvægu starfi þess fyrir sjófarendur á Faxaflóa.

„Við fráfall félaga okkar, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, erum við enn og aftur minnt á mikilvægi alls öryggis þeirra sem eru á sjó. Staðsetning öflugs björgunarskips á Akranesi, miðsvæðis við Faxaflóa, er mikilvægt öryggi fyrir alla sjófarendur sem um flóann fara og styttir viðbragðstíma. Aðalfundurinn þakkar félögum í Björgunarfélagi Akraness fyrir einstakt samstarf og fagmannlegt starf sveitarinnar.“