Fréttir

Flugfélagið Play gjaldþrota

Flugfélagið Play er hætt starfsemi og verður óskað eftir gjaldþrotaskiptum félagsins síðar í dag. Fjögur hundruð manns missa vinnuna og ferðaáætlanir þúsunda farþega eru í uppnámi, þar sem margir eru nú strandaglópar á erlendri grundu. Þeir sem greitt hafa fyrir ferðir með greiðslukorti ættu að vera í skástri stöðu, en hver og einn þarf nú að panta sér far með öðru flugfélagi. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að þeir sem eru staddir erlendis ættu að hinkra örlítið og fylgjast með upplýsingum á vef Samgöngustofu. Þá eru ferðaáætlanir fjölda annarra í uppnámi, svo sem árshátíðarferðir og annað á næstu dögum og vikum. Í tilkynningu frá félaginu segir að ástæður þessarar ákvörðunar séu margar, þar með talið að rekstur félagsins hafi lengi gengið verr en vonir stóðu til, flugmiðasala hafi ekki gengið vel síðustu vikur og mánuði í kjölfar neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um reksturinn - og þá hafi ríkt ósætti á meðal hluta starfsmanna félagsins vegna breytinga á stefnu þess.

Hluthafar í félaginu tapa væntanlega öllum sínum hlutum, en í þeirra röðum eru íslenskir lífeyrissjóðir. Stærstu hluthafar eru lífeyrissjóðurinn Birta og sjóðir í stýringu hjá Íslandssjóðum. Auk þess er fjárfestingafélagið Stoðir með stóran hlut.