Fréttir
Reykholt í Borgarfirði. Ljósm. mm

Snorrastofa þrjátíu ára og hátíð Snorra á laugardaginn

Næstkomandi laugardag klukkan 14 hefst dagskrá í Reykholtskirkju tileinkuð Snorra Sturlusyni. Fluttir verða fyrirlestrar og tónlist frá Hundi í óskilum. Þorgeir Ólafsson formaður stjórnar Snorrastofu setur dagskrána en séra María Guðrúnardóttir Ágústsdóttir verður kynnir. Óskar Guðmundsson rithöfundur flytur fyrirlesturinn Lítið eitt um Snorra eftir Snorra. Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur flytur fyrirlesturinn Sögur af jörðu, Um lífræna safnalist forna. Loks mun Brynja Þorgeirsdóttir, lektor í bókmenntum við Háskóla Íslands, flytja fyrirlesturinn Hugarfylgsni Egils.

Samtíðis er þess minnst að þrjátíu ár eru frá því menningar- og miðaldasetrinu Snorrastofu í Reykholti var komið á fót. Í ljósi merkrar sögu staðarins hefur stofnunin stundað og tekið þátt í fjölda rannsókna tengdum staðnum og miðaldafræðum almennt. Sú hugmynd, að gera Snorrastofu að evrópsku menningarsetri, hefur verið grunnstef starfseminnar, og allt frá árinu 1998 hefur stofnunin stuðlað að iðkun miðaldafræða í samvinnu við innlendar sem erlendar stofnanir. Afraksturinn hefur birst í 24 útgefnum bókum Snorrastofu og samstarfsaðila stofnunarinnar ásamt fjölda greina í fræðiritum.

Bergur Þorgeirsson var fyrsti forstöðumaður Snorrastofu, kom til starfa 1998, og starfar þar enn. Hann segir að auk rannsókna annist stofnunin miðlun þekkingar á menningu miðalda með sýningum, starfrækslu gestamóttöku, fyrirlestrum og námskeiðum og hafa Reykholt, Snorri og önnur fræði tengd héraðinu hafa forgang. Þá rekur Snorrastofa bæði almennings- og rannsóknarbókasafn, ásamt því að bjóða upp á svokölluð Prjóna-bóka-kaffi. Þar gefst fólki kostur á að njóta skapandi samveru í andrúmslofti bókhlöðu stofnunarinnar. Fræðastarfinu hefur því verið sinnt með þátttöku fólks úr öllum heimshornum og hafa alþjóðlegu samskiptin vakið eftirtekt. Sex til sjöhundruð innlendir og erlendir fræðimenn hafa komið í Reykholt á rúmum 20 árum, ýmist til að taka þátt í rannsóknarverkefnum, sitja ráðstefnur eða dveljast á staðnum við fræðaiðkun, þýðingar og aðrar skriftir.

„Snorrastofa mun halda áfram að stuðla að samvinnu íslenskra og erlendra fræðimanna, enda í kjörstöðu vegna staðsetningar á þjóðmenningarstað og allra þeirra verkefna, sem stofnunin hefur sinnt á umliðnum árum,“ segir Bergur.

Sögustaðurinn

Reykholt er meðal mikilvægustu sögustaða Íslands og er þekktast fyrir búsetu Snorra Sturlusonar þar á fyrri hluta 13. aldar. Saga staðarins tengist þó ekki einvörðungu þessum merka rithöfundi og höfðingja, enda orðinn stórbýli og kirkjumiðstöð löngu fyrir hans daga. Þá stafar einnig ljóma af ferli svonefndra Reykhyltinga í kjölfar umbrota siðaskiptanna, þ.e. merkispresta er tilheyrðu sömu ættinni á 185 ára tímabili, sem hófst með því að séra Jóni Einarssyni var falinn staðurinn árið 1569. Kunnastur þeirra var séra Finnur Jónsson, síðar biskup í Skálholti. Finnur var sonur séra Jóns Halldórssonar í Hítardal, merks 17. aldar fræðamanns, og faðir séra Hannesar Finnssonar, síðasta Skálholtsbiskups. Reykhyltingarnir voru þekktir fyrir umfangsmikla og mikilvæga skjalasöfnun og var skjalasafn kirkjustólsins í Reykholti keypt til Landsskjalasafnsins, síðar Þjóðskjalasafns Íslands, við stofnun þess.

Snorrastofa þrjátíu ára og hátíð Snorra á laugardaginn - Skessuhorn