Fréttir
Hópurinn sem kom saman á vinnufundi á Hvanneyri 22.-24. september. Ljós. James Einar Becker

Endurheimt votlendis stærsta verkefni LbhÍ til þessa

Peatland LIFEline.is er nýtt og metnaðarfullt verkefni sem miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Verkefninu er leitt af Landbúnaðarháskóla Íslands en aðrir samstarfsaðilar í því eru Land og skógur, Náttúrufræðistofnun, Fuglavernd, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds. Verkefnið er að mestu fjármagnað af LIFE-sjóðnum, sem er hluti af umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Það hófst formlega 1. september síðastliðinn og mun standa yfir í 66 mánuði, eða til loka febrúar 2031. Heildarkostnaður nemur rúmlega átta milljónum evra, en þar af leggur LIFE-sjóðurinn til 75% fjárhæðarinnar, eða um sex milljónir evra. Peatland LIFEline.is er umfangsmesta verkefni sem Landbúnaðarháskólinn hefur stýrt til þessa.