Fréttir
Glaðir viðtakendur gjafanna í Úkraínu. Ljósm. kfum.is

Jól í skókassa til barna í Úkraínu

Verkefnið Jól í skókassa á vegum KFUM og KFUK á Íslandi felst í því að gleðja börn í Úkraínu sem búa við bágar aðstæður og gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til að öll börnin fái svipaðar jólagjafir eru ákveðnir hlutir sem mælt er með að fari í hvern kassa. Gjafirnar eru sendar til Úkraínu en þar geisar stríð og margir sem búa við slæmar aðstæður og kröpp kjör. Að því er fram kemur á heimasíðu KFUM og KFUK er íslensku skókössunum meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt. Gjöfunum hefur fjölgað ár frá ári og mest farið í 5.575 gjafir frá Íslandi.

Allir sem vilja geta tekið þátt í verkefninu og hafa undirtektirnar verið góðar frá því fyrst var farið af stað með verkefnið hér á landi árið 2004. Á heimasíðu kfum.is er að finna allar upplýsingar um hvernig skuli ganga frá kössunum og hvað skuli setja í þá. Mælt er með vettlingum, sokkum, húfum, treflum, nærfötum, peysum, bolum, tannbursta, tannkremi og fleiru. Upplýsingar um frágang skókassanna, gjafir í þá og hvað má ekki fara í þá er að finna á vef kfum.is

Móttökustaðir á fimm stöðum

Fimm móttökustaðir verða eins og í fyrra hjá KFUM og K á Vesturlandi. Þar verður hægt að kaupa kassa sem hafa mynd af Alþingishúsinu og Dómkirkjunni ásamt texta á úkraínsku um landið okkar. Einnig er hægt að nota skókassa eins og verið hefur. Mótttökustaðir hér á Vesturlandi eru:

Akranes

Tekið er á móti skókössum í safnaðarheimili Akraneskirkju. 27. október – 31. október á milli klukkan 10:00 – 15:00. Á Akranesi er hægt að kaupa kassa í Axelsbúð á opnunartíma. (Axel 896-1979). Tengiliður fyrir Akranes er Irena Rut Jónsdóttir (868-1383) og Axel Gústafsson (896-1979).

Borgarnes

Tekið er á móti skókössum í Borgarneskirkju. Síðasti skiladagur er þriðjudaginn 28. október milli klukkan 16-18. Tengiliður er Heiðrún Helga Bjarnadóttir (869-0082)

Ólafsvík

Tekið verður á móti skókössum á Átthagastofu Snæfellsbæjar, fimmtudaginn 30. október frá kl. 16:00-18:00. Tengiliður er Sigurbjörg Jóhannesdóttir (843-0992).

Grundarfjörður

Tekið verður á móti skókössum í safnaðarheimili Grundarfjarðarkirkju fimmtudaginn 30. október frá kl. 16:00-18:00. Tengiliðir eru Anna Husgaard Andreasen (663-0159) og Salbjörg Sigríður Nóadóttir (896-6650).

Stykkishólmur

Tekið verður á móti skókössum í Stykkishólmskirkju þriðjudaginn 4. nóvember frá kl. 16:00 til 18:00. Tengiliðir eru Ásta Sólveig Hjálmarsdóttir(898-9688) og Kristín Rós Jóhannesdóttir (893-1558).

Jól í skókassa til barna í Úkraínu - Skessuhorn