Fréttir

Haustlægð á föstudaginn færir okkur úrhelli

Útlit er fyrir vonskuveður um nær allt land á föstudaginn, víða allt frá fimmtudagskvöldi og til aðfararnætur laugardags. Veðurstofan hefur því gefið út gular viðvaranir vegna hvassviðris eða storms og úrkomu í öllum landshlutum að norðanverðum Vestfjörðum undan skyldum. Vatnavextir gætu orðið í ám og lækjum og mögulega staðbundin flóð sem gætu truflað umferð. Þegar líður á fimmtudgskvöldið og nóttina bætir í vind og þegar komið er fram á föstudag er útlit fyrir storm víða um land.

Við Breiðafjörð og Faxaflóa er spáð suðaustan- og sunnan 13-23 m/s og snörpum vindhviður við fjöll eftir hádegið á föstudaginn, hvassast verður á Snæfellsnesi.

Vindur getur verið varasamur fyrir ökutæki, sér í lagi þau sem eru viðkvæm fyrir vindi. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Haustlægð á föstudaginn færir okkur úrhelli - Skessuhorn