Fréttir

Breyting á dagskrá Starfamessu

Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns eru starfamessur framundan í þremur framhaldsskólum á Vesturlandi. Verkefnið er eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vesturlands. Þar gefst íbúum, fyrirtækjum og ungu fólki tækifæri til að tengjast og kynna sér störf og menntun á svæðinu. Starfamessurnar verða þrjár hér á Vesturlandi en nú hefur orðið breyting á tímasetningu þeirrar fyrstu, sem átti að fara fram í Menntaskóla Borgarfjarðar næstkomandi föstudag. Þeim viðburði hefur verið frestað og verður ný tímasetning kynnt síðar. Starfamessa verður hins vegar í Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði næstkomandi þrðjudag, 30. september, og í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi föstudaginn 3. október. Að sögn Hlédísar Sveinsdóttur verkefnisstjóra hefur verið mjög góð þátttaka fyrirtækja í kynninguna, eða yfir fjörutíu á hverjum stað

Starfamessan er viðburður þar sem fyrirtæki, stofnanir og skólar kynna störf, starfsgreinar og námsleiðir. Hún er hugsuð fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla, framhaldsskólanema og alla sem hafa áhuga á að skoða fjölbreyttar leiðir framtíðarinnar. Fyrir nemendur gefst tækifæri til að kynnast möguleikum í námi og starfi og fá innblástur fyrir framtíðina. Fyrir fyrirtæki og stofnanir er ávinningurinn að fá vettvang til að kynna starfsgreinar, hitta unga fólkið og jafnvel næsta kynslóð starfsfólks. Loks fyrir íbúa á svæðinu er þetta góð leið til að sjá hversu fjölbreytt og spennandi atvinnulífið á Vesturlandi er. Íbúar eru hvattir til að kíkja við.

Breyting á dagskrá Starfamessu - Skessuhorn