Fréttir
Guðný Helga Herbertsdóttir forstjóri VÍS.

Opnunarhátíð VÍS á Akranesi á föstudaginn

„Það er virkilega góð tilfinning að geta boðið bæjarbúum að fagna opnun nýrrar þjónustuskrifstofu okkar á Akranesi,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS í samtali við Skessuhorn, en félagið opnaði nýverið skrifstofu í bænum eftir að hafa lokað starfseminni þar árið 2018. Fjórir starfsmenn munu verða staðsettir á skrifstofunni sem Ingibjörg Ólafsdóttir, betur þekkt sem Inga Óla, mun veita forystu.

„Við viðurkennum fúslega að við hefðum aldrei átt að loka hér. Akranes hefur alltaf verið mikilvægur hluti af sögu og starfsemi VÍS og við finnum sannarlega að hér eigum við heima.  Síðasta vor opnuðum við tímabundið í húsnæði Íslandsbanka og voru viðtökurnar mjög góðar. Það er því afar ánægjulegt og spennandi að við séum að opna okkar eigin þjónustuskrifstofu við hliðina.“

Skrifstofan, sem er staðsett að Dalbraut 1, er þegar opin viðskiptavinum, en formleg opnunarhátíð verður föstudaginn 26. september milli kl. 15 og 17. Boðið verður upp á kaffi og kökur og góða stemningu. „Við viljum fagna endurkomunni með viðskiptavinum okkar og bæjarbúum öllum. Þetta markar nýtt upphaf og við hlökkum mikið til að taka á móti öllum þeim sem vilja kíkja við,“ segir Guðný að lokum.

Opnunarhátíð VÍS á Akranesi á föstudaginn - Skessuhorn