
Leggur til að sveitarfélög verði ekki með færri en 250 íbúa
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur kynnt í Samráðgátt stjórnvalda drög að frumvarpi þar sem ýmsar breytingar eru lagðar til á sveitarstjórnarlögum. Breytingarnar varða m.a. stjórnsýslu sveitarfélaga, íbúasamráð, frumkvæði ráðherra að sameiningum sveitarfélaga, samvinnu sveitarfélaga, fjármál og reikningsskil, starfshætti kjörinna fulltrúa og eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga. Meginmarkmið breytinganna er að styrkja stjórnsýslu sveitarfélaga og efla sveitarstjórnarstigið í heild sinni, segir í kynningu. Meðal annars er lagt til að ráðherra skuli eiga frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga sem hafa undir 250 íbúa, nema sérstakar aðstæður mæli því í mót, og að sameiningu verði lokið við sveitarstjórnarkosningar 2026. Þetta á við um átta sveitarfélög í landinu, meðal annars Eyja- og Miklaholtshrepp á Snæfellsnesi þar sem íbúar eru nú 124 og Reykhólahrepp þar sem íbúar eru 246, eða rétt undir lágmarksfjölda samkvæmt frumvarpinu. Eins og kunnugt er mun þetta ekki eiga við um Skorradalshrepp þar sem 65 búa samkvæmt Þjóðskrá, en sameining Borgarbyggðar og Skorradalshrepps var samþykkt í íbúakosningu um nýliðna helgi.