
Sniðgekk vegalokun og ók á starfsmann malbikunarfyrirtækis
Fyrr í vikunni var rækilega kynnt í fjölmiðlum fyrirhuguð vegalokun á þjóðveginum beggja vegna Hvalfjarðarganga að norðanverðu. Fyrst var malbikað við Kúludalsá og í gær á Akrafjallsvegi. Það atvik varð í gær að ökumaður bíls hunsaði lokunarpóst áleiðis á Akranes, virti ekki vegalokun við hringtorgið og ekki merki starfsmanns Colas á Íslandi með þeim afleiðingum að hann ók á starfsmanninn með útrétta hönd. Slæmur slinkur kom á hönd starfsmannsins sem tognaði illa. Ökumaðurinn flúði hins vegar af vettvangi slyssins. Var starfsmaður malbikunarfyrirtækisins fluttur með sjúkrabíl undir læknishendur og málið kært til lögreglu.
Fram kom í fréttum Stöðvar2 í gærkvöldi að númer bílsins sem maðurinn ók hafi náðst og að málið væri til rannsóknar hjá lögreglu. Það er litið mjög alvarlegum augum þegar ökumenn virða ekki vegalokanir eins og gerðist í þessu tilfelli, en slíkt er ítrekað að eiga sér stað. Þegar unnið er við viðgerðir á lokuðum vegi eiga starfsmenn að geta treyst því að umferð fari þar ekki um. Vitundarvakning þurfi því að eiga sér stað hjá ökumönnum um að líf og heilsa starfsmanna í vegavinnu er í húfi.