Fréttir
Frá Ólafsvíkurhöfn. Ljósm. mm

Afturkalla haffærnisskírteini fjölda báta frá og með í kvöld

Samgöngustofa hefur sent eigendum 121 báts bréf þar sem afturkallað er haffærniskírteini þeirra frá og með í kvöld. Ástæðan er sögð; „ófullnægjandi skoðanir gúmmíbjörgunarbáta sem hafa áhrif á haffæri skips,“ eins og segir í bréfi til eins bátseiganda sem Skessuhorn hefur undir höndum. Í bréfinu segir jafnframt: „Samgöngustofa hefur í kjölfar ábendinga, framkvæmt úrtaksskoðanir á gúmmíbjörgunarbátum skipa sem þjónustaðir voru af Skipavík ehf. frá miðju síðasta ári. Samgöngustofa hefur eftirlit með starfsemi þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta skv. ákvæðum reglugerðar um þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta nr. 588/2002. Samkvæmt frétt um málið á fréttveg Ríkisútvarpsins hefur þjónustuaðilinn sjálfur skilað inn starfsleyfi sínu eftir að málið kom upp.

Niðurstöður úrtaksskoðananna hafa leitt í ljós ófullnægjandi frágang á gúmmíbjörgunarbátum í vissum tilvikum og í þeim mæli að Samgöngustofa telur brýnt að bregðast við með tilliti til siglingaöryggis. Miðað við fjölda frávika, stærð úrtaksins og þá annmarka sem komið hafa í ljós telur stofnun sér ekki annað fært en að meta allar skoðanir félagsins á framangreindu tímabili ófullnægjandi og að skipin, sem sættu skoðun félagsins, séu óhaffær, sbr. 36. gr. skipalaga nr. 66/2021.“

Því hafa haffærniskírteini þessara báta verið afturkölluð frá og með klukkan 23 í kvöld, föstudaginn 19. september. „Útgerðir sem þurfa að vera með skip á sjó á komandi dögum og áður en skoðun gúmmíbjörgunarbáts fer fram geta haft samband við Samgöngustofu.“

Áður en nýtt haffærisskírteini verður gefið út skal fara fram skoðun á gúmmíbjörgunarbát skipsins og staðfesting að berast Samgöngustofu frá þjónustuaðila. Skoðunin skal framkvæmd af viðurkenndum þjónustuaðila. Skoðunin verður útgerð skipsins að kostnaðarlausu enda fari hún fram fyrir árslok 2025. Fram kemur í bréfi Samgöngustofu að ákvörðun þessi sé kæranleg til innviðaráðuneytisins og skal kæra berast ráðuneytinu innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi var tilkynnt um ákvörðun þessa.

Afturkalla haffærnisskírteini fjölda báta frá og með í kvöld - Skessuhorn