Fréttir

Þrír dagar eftir í sameiningarkosningum

Íbúakosningu um tillögu nefndar um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps lýkur síðdegis á laugardaginn. Að sögn Sveinbjörns Eyjólfssonar formanns kjörstjórnar hefur verið afar dræm kjörsókn í Borgarbyggð það sem af er kosningunni, en öllu meiri í Skorradalshreppi. Í gær höfðu innan við 5% nýtt kosningarétt sinn í Borgarbyggð en 36% í Skorradal.

Í dag verða kjördeildir Borgarbyggðar opnar í félagsheimilinu Lindartungu, félagsheimilinu Þinghamri áVarmalandi og Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum. Í Lindartungu verður opið milli kl. 18:00 og 20:00. Í Þinghamri og Kleppjárnsreykjum mun vera opið á milli klukkan 16:00  og 20:00. Í Ráðhúsi Borgarbyggðar í Borgarnesi verður opið milli kl. 12.00 og 14.00 en þá einungis fyrir Borgarneskjördeild og í Laugabúð fyrir íbúa Skorradals klukkan 16.00 og 18.00.

Á morgun, föstudag, er svo opið fyrir allar kjördeildir Borgarbyggðar í Ráðhúsi Borgarbyggðar milli 12.00 og 14.00.

Á laugardaginn verður eins og fyrr segir lokakjördagur og er opið í Hjálmakletti Borgarnesi fyrir allar kjördeildir Borgarbyggðar frá klukkan 10.00 – 18.00. Sama dag verður opin kjördeild í Laugabúð fyrir íbúa í Skorradal.

Eftir að kjörstöðum lýkur verða atkvæði talin og úrslit úr sameiningarkosningunni munu því liggja fyrir þá um kvöldið.