
Háskólinn á Bifröst á rætur að rekja til Samvinnuskólans sem var stofnaður árið 1918 í Reykjavík og fluttist að Bifröst árið 1955. Þar var til skamms tíma myndarlegt háskólaþorp, en aðstæður hafa breyst. Ljósm. gj
Þungar áhyggjur af málefnum flóttamanna á Bifröst
Velferðarnefnd Borgarbyggðar lýsir á nýjasta fundi sínum yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem orðin er varðandi samræmda móttöku flóttamanna og óskar eftir reglulegri upplýsingagjöf og eftirfylgni af hálfu félagsþjónustu um málið. Á fundi nefndarinnar í apríl síðastliðnum kom m.a. fram að ljóst væri að sveitarfélagið bæri töluverðan fjárhagslegan þunga vegna fjölda flóttafólks sem hefur verið búsettur í sveitarfélaginu í yfir tvö ár og að réttur sveitarfélaga til endurgreiðslu væri ekki lengur til staðar. Telur nefndin mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni, samhliða því að vinna áfram að því að fækka þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda og stækka þann hóp flóttamanna sem sækir atvinnu og er virkur í samfélaginu.