
Eldgos gæti hafist hvenær sem er
Veðurstofan staðfestir að landris og kvikusöfnun undir Svartsengi á Reykjanesi haldi áfram, en um 8-9 milljónir rúmmetra kviku hafa safnast undir Svartsengi frá síðasta gosi sem hófst 16. júlí og orsakaði m.a. talsverða gosmóðu á Vesturlandi. Magnið sem hljóp úr kvikusöfnunarsvæðinu í því gosi var áætlað um 12 milljónir rúmmetra. Líkurnar á nýju eldgosi aukast þegar um 11 milljónir rúmmetra hafa safnast saman, sem gæti náðst í lok september. Þó er áfram töluverð óvissa, hættumatskortið helst óbreytt en verður endurskoðað í næstu viku.
Líkur á nýju gosi
Á heimasíðu Veðurstofunnar kemur fram að út frá fyrri atburðum á Sundhnúksgígaröðinni aukist líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar jafn mikið af kviku hefur safnast fyrir undir Svartsengi og hljóp út í síðasta atburði. Ef söfnunarhraðinn helst óbreyttur verður þessu magni sem sagt náð í seinni hluta þessa mánaðar, líkt og kom fram við síðustu uppfærslu hættumatskorts. Reynslan sýnir þó að mörkin á því hvenær atburður hefst eru breytileg á milli gosa. Í sumum tilfellum hefur gos hafist við minna magn, í öðrum tilfellum hefur þurft meira magn. Þess vegna er gert ráð fyrir að eldgos geti hafist hvenær sem er, jafnvel þótt kvikusöfnun sé enn undir 12 milljónum rúmmetra.
Hættumatskort verður að þessu sinni óbreytt en í ljósi þess að sama magn af kviku, og fór út í síðasta gosi verði náð í lok september, mun hættumatskortið verða endurskoðað í næstu viku. Það er því í gildi frá 16. til 23. september.