Fréttir

Sýna gamlar filmur úr safni í Stykkishólmi

Kvikmyndasafn Íslands og Amtsbókasafnið í Stykkishólmi bjóða upp á kvikmyndasýningu föstudaginn 19. september klukkan 17:00. Á sýningunni verður sýnt myndefni frá Stykkishólmi og nágrenni. Meðal annars sjást forsetaheimsóknir Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar í bæinn, fermingarbörn, líf og leikir í kringum sjómannadaginn og fiskvinnsla á höfninni. Myndefnið er allt frá því um og eftir miðja síðustu öld. Sýningin fer fram á bókasafninu klukkan 17:00 og stendur í um 30 mínútur og er gestum að kostnaðarlausu.