
Lokaleikur fyrri hluta mótsins spilaður í dag – fólk hvatt til að hætta snemma í vinnu
Lokaumferð fyrri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu lýkur í dag þegar tveir leikir verða spilaðir. Breiðablik tekur á móti ÍBV en á Akranesvelli tekur ÍA á móti Aftureldingu klukkan 16:45. Liðin sitja á botni deildarinnar; Afturelding með 21 stig og ÍA með 19. Með sigri heimamanna verða liðin því jöfn að stigum fyrir síðari hlutann, þegar deildinni verður skipt upp eftir stöðu þeirra. Í sætunum fyrir ofan er KR með 24 stig og KA með 26. Hvert einasta stig skiptir því máli og alveg ljóst að Skagamenn ætla ekkert að gefa eftir. KFÍA hefur auglýst upphitun fyrir leikinn síðdegis, eins og glögglega má sjá á meðfylgjandi samfélagsmiðla auglýsingu.
Norðurál, aðalstyrktaraðili KFÍA, býður öllum þeim sem mæta í gulu frítt á völlinn í dag. „Við hvetjum fyrirtæki, skóla, leikskóla, aðrar stofnanir – alla Skagamenn, til að flagga, skreyta og klæðast gulu. Förum snemma heim úr vinnu, sækjum krakkana snemma úr skólum og leikskólum og mætum saman á völlinn,“ segir í tilkynningu.