Fréttir

Dregið verður saman í útlendingamálum

Dómsmálaráðherra leggur áherslu á öryggi og einföldun í fjárlögum næsta árs, segir í tilkynningu. Heildarfjárframlög sem heyra undir ráðuneytið nema rúmum 73 milljörðum króna, eða um 4,5% af áætluðum útgjöldum ríkissjóðs. Stærsti hluti fjárveitinganna fer í öryggismál. Þar undir falla lögregla, Landhelgisgæsla, ákæruvald og fangelsismál, þar sem útgjöld nema rúmum 50 milljörðum króna. Það er 12,7% hækkun frá fjárlögum ársins 2025. Í fjárlögum er gert ráð fyrir rúmlega 30% lækkun á útgjöldum vegna útlendingamála. Fjárveitingar í málaflokknum verða 6,5 milljarðar árið 2026, samanborið við 9,5 milljarða á árinu 2025. Til að það markmið náist ætlar ráðherra að leggja fram fimm frumvörp í málaflokknum, m.a. um hert skilyrði vegna umsókna um dvalarleyfi ásamt frumvarpi sem gerir stjórnvöldum kleift að afturkalla alþjóðlega vernd þeirra sem framið hafa alvarleg eða ítrekuð brot, sem og þeirra sem ógna öryggi ríkisins.