
Bíða þess hvort öðru sinni verður höggvið í sama knérunn
Fréttaskýring um þá óvissu sem komin er upp í byggðakerfum sjávarútvegs
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra ákvað á síðustu dögum fyrir upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs að ráðast í endurskoðun að hluta á því sem kallað er byggðakerfi sjávarútvegsins. Sú endurskoðun stendur enn yfir og hefur leitt af sér mikla óvissu í útgerð og fiskvinnslu er byggir á línuívilnun en einkum þó hjá þeim fyrritækjum sem hafa á undanförnum árum fengið úthlutað skel- og rækjubótum. Þær bætur urðu til vegna réttlætissjónarmiða þar sem þær útgerðir voru sviptar að hluta aflaheimildum í bolfiski þegar aflamarkskerfinu var komið á á sínum tíma.
Lofað upp í ermina
Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð var ofarlega í hugum flestra hvernig staðið yrði við öll þau loforð sem gefin voru í kosningabaráttunni. Mörg hver voru þau djörf og sum allt að því fífldjörf og í hugum flestra var svo um loforð flokks Fólksins að það yrði ófrávíkjanleg krafa þeirra við myndun ríkisstjórnar að strandveiðidagar í ár yrðu 48 talsins. Stjórnun fiskveiða er bundin lagasetningum sem gefa ekki mikið svigrúm til breytinga innan ramma laganna. Því getur yfirlýsing um frjálsar veiðar í 48 daga á strandveiðum flokkast sem fífldjarfur leikur ekki síst að í ljósi þess að þegar loforðið féll í kosningabaráttu síðasta árs var nýtt fiskveiðiár hafið.
Rann út í sandinn
Þegar ríkisstjórnin var mynduð var þetta loforð endurtekið og veltu þá flestir áhugamenn um sjávarútveg vöngum hvernig hægt væri að standa við þetta loforð. Leið svo veturinn og skipulag strandveiða var ávallt til umræðu og sýnt þótti að aflaheimildir til þeirra myndu ekki duga til 48 daga veiða. Þrátt fyrir ýmsar hrókeringar atvinnuvegaráðherra var ljóst þegar strandveiðar voru hafnar að vart yrði hægt að standa við stóru orðin. Um síðir kom útspil atvinnuvegaráðherra. Frumvarp sem kom í veg fyrir að Fiskistofa gæti stöðvað strandveiðarnar þegar úthlutuðum heildarafla þeirra yrði náð. Ráðherra lagði því til að strandveiðarnar færu á yfirdrátt sem með einhverju móti yrði greitt úr síðar. Frumvarp þetta dagaði uppi í málþófi síðustu vikna á Alþingi. Örlög strandveiðanna voru því ráðin í flestra huga. Ekki myndi nást að halda þeim úti í þá 48 daga sem lofað hafði verið.
Flutt milli ráðuneyta
Flestum er samt í fersku minni hvernig strandveiðisjómönnum var haldið glóðvolgum allt fram á síðasta dag. Skilaboð komu til þeirra að málum yrði bjargað fyrir horn á síðustu stundu. Miðvikudaginn 16. júlí gaf svo Fiskistofa út að strandveiðum væri lokið við lítinn fögnuð sjómanna. Daginn eftir bárust svo athygliverð tíðindi úr Stjórnarráðinu. Svokallað byggðakerfi sjávarútvegsins, sem felur meðal annars í sér byggðakvóta, línuívilnun, skel- og rækjubætur og strandveiðar, var fært frá atvinnuvegaráðuneytinu til innviðaráðuneytisins. Frá ráðherra Viðreisnar til ráðherra Flokks fólksins. Enn kviknaði von í hugum strandveiðimanna um að Eyjólfi Ármannssyni innviðaráðherra tækist, sem öðrum hefði ekki tekist, að finna glufu fyrir frekari aflaheimildir til strandveiða. Um kvöldið hvarf sú von með yfirlýsingu Eyjólfs um að hann hefði ekkert getað gert í málinu. Eitt mest áberandi kosningaloforð hinnar nýju ríkisstjórnar var brostið.
Saga bótanna
En að tilfærslu byggðakerfisins á milli ráðuneyta. Að ýmsum áhugamönnum um sjávarútveg læddist sá grunur að tilgangurinn með þeim flutningi væri sá að Flokki fólksins væri gefið sjálfdæmi um að nýta úthlutanir innan þess kerfis til að treysta undirstöður strandveiðikerfisins til næstu ára. Þegar rætt er um rækju- og skelbætur í dag má greina í umræðunni að slíkar bætur hljóti að eiga sér ákveðinn endapunkt og ekki sé óeðlilegt að slíkar bætur fjari út, Að útgerðir sem þær fá aðlagi sig að breyttum veruleika eða skelin og/eða rækjan fari aftur að veiðast og allt falli í eðlilegt horf.
Það á ekki við í þessu tilfelli og því þarf að rifja upp söguna frá því að kvótakerfið var tekið upp. Til einföldunar má segja að þá hafi aflaheimildum verið úthlutað til veiðiskipa á grundvelli veiðireynslu þrigga síðustu ára fyrir úthlutun. En síðan tóku við ýmsar útfærslur á kerfinu því allir vildu bera meira úr býtum þar sem lítið var til skiptanna. Því var tekin sú pólitíska ákvörðun árið 1984 að gera rækju- og skelveiðar að svokölluðum sérveiðum. Þau skip sem höfðu aflareynslu bæði í bolfiskveiðum og rækju- og/eða skelveiðum töldust til flokks skipa í sérveiðum. Þau urðu að sæta sérstökum skerðingum í bolfiski. Í tilfelli skipa sem veitt höfðu skelfisk var skerðingin að meðaltali 35%. Hjá sumum skipum var hún minni en öðrum meiri og dæmi var um skip sem urðu að láta frá sér alla aflahlutdeild í bolfiski. Þessum skerðingum var svo bætt við hlutdeild þeirra er eingöngu veiddu þorsk eða gerðu út togara. Þau skip fengu því í raun hærri úthlutun en veiðireynsla þeirra sagði til um. Þar er sú aflahlutdeild enn áratugum síðar.
Vagga hörpudisksveiða
Breiðafjörður var vagga hörpudiskveiða við Ísland og því komu voru það einkum bátar þaðan sem þurftu að sæta þessum skerðingum og þar var hlutdeild Stykkishólms lang mest. Skerðing aflahlutdeildar í bolfiski hafði því þyngst áhrifin þar. Stykkishólmur varð áfram vagga hörpudiskveiða og vinnslu. Með tíð og tíma voru gerðar ýmsar ráðstafanir innan stjórnkerfis fiskveiða þegar aflabrestur varð í ákveðnum fisktegundum. Loðnubrestur varð til dæmis til þess á sínum tíma að loðnuskip fengu úthlutað veiðiheimildum í rækju og grálúðu án þess að hafa veiðireynslu að baki og fleiri dæmi er hægt að nefna.
Með tímanum urðu fleiri ráðstafanir innan stjórnkerfis fiskveiða sem bæta áttu upp bæði aflaskerðingar af völdum aflabrests. Einnig vegna samdráttar í fiskveiðum í einstökum byggðarlögum vegna brotthvarfs veiðiheimilda í kjölfar hagræðingar eða sölu aflaheimilda milli byggðarlaga. Það er í raun það kerfi sem nú er kallað einu nafni byggðakerfi fiskveiða. Alltof langt mál væri að rekja alla þá sögu hér.
Í kjölfar hruns í hörpudiskstofninum í Breiðafirði m.a. af völdum sýkingar lögðust veiðar af árið 2003. Í kjölfarið var svo tekin upp úthlutun margnefndra skelbóta í formi bolfisks. Þeim var úthlutað til þeirra fiskiskipa er veiðar höfðu stundað á hörpudisk. Atvinnulíf í þeim byggðarlögum sem stundað höfðu hörpudiskveiðar tók miklum breytingum í kjölfar hrunsins í stofninum, ekki síst í Stykkishólmi. Fiskvinnslur og útgerðir löguðu sig að breyttum aðstæðum og bolfiskveiðar og vinnsla jókst að nokkru marki.
Vonin um að hörpudiskstofninn næði sér á strik hefur trúlega orðið til þess að úthlutun skelbóta telst enn ráðstöfun til skemmri tíma. Því hafa deilur um aðrar tegundir útgerðarforma orðið til þess að þessar bætur hafa rýrnað nokkuð í gegnum tíðina. Hinn pólitíski vilji til forsögu úthlutunarinnar var þó ágætlega rammaður inn í þingsályktun Alþingis frá árinu 2016 þar sem m.a. kom fram að úthluta skyldi 2.000 tonnum af bolfiski til rækju- og skelbóta.
Reglugerðir skiluðu sér ekki
Þrátt fyrir miklar breytingar í útgerð og fiskvinnslu í Stykkishólmi er upphaflega aflahlutdeild skelbótanna enn á hendi útgerða í Stykkishólmi og eru í dag burðarás útgerðar og fiskvinnslu Þórsness þar sem í dag starfa á bilinu 60-70 manns árið um kring.
Í upphafi hvers fiskveiðiárs þarf ráðherra, í þessu tilfelli innviðaráðherra, að gefa út reglugerð vegna úthlutunar veiðiheimilda í títtnefndu byggðakerfi. Er kom að úthlutun fyrir nýtt fiskveiðiár um síðustu mánaðamót kom reglugerð um byggðakvóta en engin reglugerð um skel- og rækjubætur og ekki heldur um línuívilnun.
„Yfirgripsmikil endurskoðun“
Samkvæmt heimildum Skessuhorns kom þetta öllum þeim útgerðum er málinu tengjast í opna skjöldu og undanfarna daga hefur skýringa verið leitað. Skessuhorn leitaði svara. Í svari Andra Egilssonar, aðstoðarmanns innviðaráðherra, kom fram að í kjölfar áðurnefnds flutnings málaflokksins til innviðaráðuneytisins hafi verið ráðist í „yfirgripsmikla endurskoðun á kerfinu,“ eins og segir orðrétt í svari Andra. Gefin hafi verið út reglugerð um sértækan byggðakvóta Byggðastofnunar en síðan; „bíður ákvörðun um ráðstöfun annarra þátta, þar á meðal skel- og rækjubóta, línuívilnunar, strandveiða og almenns byggðakvóta, niðurstöðu þeirrar greiningarvinnu sem nú stendur yfir. Þessi stefnumótun, sem er unnin í samráði við hagsmunaaðila, miðar að því að skapa skýra, gagnsærra og skilvirkara kerfi til framtíðar. Ráðherra mun hraða útgáfu reglugerðarinnar eins og kostur er,“ segir orðrétt í svari Andra.
Skessuhorn leitaði svara um hvaða hagsmunaaðilar hafi komið að stefnumótunarvinnunni en engin svör hafa borist við þeirri spurningu. Einnig var leitað svara við því hvort réttlætanlegt sé að fara í endurskoðun á kerfi þegar einungis sex vikur eru í að nýtt fiskveiðiár hefjist en engin svör hafa borist við þeirri spurningu. Þá var einnig leitað svara við þeirri spurningu hvort boðlegt sé að setja fjölda fyrirtækja í óvissu fram eftir fiskveiðiárinu og hvort ekki hefði verið eðlilegra að nýta yfirstandandi fiskveiðiár til undirbúnings breytingum á kerfinu en við því hafa heldur engin svör borist.
Fólk er uggandi
Bæði bæjarstjórinn í Stykkishólmi, Jakob Björgvin S. Jakobsson og Eggert Halldórsson framkvæmdastjóri Þórsness ehf. hafa í samtölum við fjölmiðla lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu mála. Sagði Eggert í samtali við Morgunblaðið að hann þori ekki að hugsa þá hugsun til enda ef Þórsnes fái ekki þær aflaheimildir sem í skel- og rækjubótunum felast. Jakob Björgvin benti í sama blaði á þá staðreynd að Þórsnes sé stór atvinnurekandi í Stykkishólmi og skipti samfélagið gríðarlegu máli. Jafnframt kvaraði hann undan því að ekkert samráð hefði verið haft vegna þessara tafa á útgáfu reglugerðarinnar sem er undanfari úthlutunar.
Öll úthlutunarkerfi búa til freistnivanda hjá þeim er með úthlutunina fara. Í tilfelli svokallaðs byggðakerfis er hann augljós ekki síst í ljósi loforða um fjölda strandveiðidaga sem ekki var hægt að standa við og tilfærslu byggðakerfisins til ráðherra flokksins er þau loforð gaf.
Atvinnulíf og íbúar í Stykkishólmi bíða þess hvort það samfélag þurfi aftur að leggja til aflaheimildir öðrum til handa líkt og gert var við upptöku kvótakerfisins 1984. Að höggvið verði öðru sinni í sama knérunn.