
Breytingar á skipulagi vegna þvottastöðvar tefjast um sinn
Á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar síðastliðinn þriðjudag voru til umræðu tvö mál sem bæði tengjast umsókn Löðurs um að starfrækja bílaþvottastöð í húsi sem skilgreint er sem verslunar- og þjónustuhús við Innnesveg 1 á Akranesi. Bílaþvottastöð uppfyllir ekki þá skilgreiningu að teljast til verslunar- eða þjónustu og því er kallað eftir breytingu á skipulagi. Sú skilgreining rúmar í sjálfu sér heldur ekki bílaverkstæði sem þó var rekið í húsinu um árabil. Undanfarin tvö ár hefur verið til umfjöllunar í bæjarkerfinu annars vegar breyting á aðalskipulagi sem gæfi heimild fyrir starfsemi bílaþvottastöðvar umfram núverandi ákvæði um verslun og þjónustu. Hins vegar breyting á deiliskipulag Flatahverfis klasa 5 og 6 vegna lóðarinnar Innnesvegur 1 til samræmis við framangreint.