Fréttir

Stofnfundur í Fluguhnýtingarfélagi Vesturlands verður 4. október

Eftir sex vel heppnuð fluguhnýtingarkvöld á Vesturlandi á síðasta vetri; þrjú á Akranesi og þrjú í Borgarnesi, fóru félagarnir Jóhann Ólafur Björnsson og Valdimar Reynisson að velta fyrir sér hvernig best væri að virkja og helst auka áhuga fyrir fluguhnýtingum hjá Vestlendingum. Niðurstaðan var sú að þeir ákváðu að stofna félag fyrir fluguhnýtingarfólk á Vesturlandi. „Við viljum virkja þennan áhuga  sem virðist vera fyrir fluguhnýtingum í landshlutanum til að fá fleiri til að hnýta og byggja upp samfélag fluguhnýtingarfólks sem hefur þá sameiginlegan vettvang fyrir áhugamál sitt, sinna fræðslu og eiga samveru við aðra hnýtara,“ segir Jóhann Ólafur í samtali við Skessuhorn.

Félagarnir fengu Heiðar Þór Lárusson með sér í lið við undirbúning og skipulagningu fyrir stofnun félagsins. Þeir eru nú búnir að forma hugmyndir um hlutverk, lög og tilgang félagsins, nafnið er komið og verður það Fluguhnýtingarfélag Vesturlands. „Fluguhnýtingarfélag Vesturlands hyggst standa fyrir opnum fluguhnýtingarkvöldum um Vesturland. Fyrsta kvöldið verður laugardaginn 4. október í Keilusalnum á Akranesi en það verður jafnframt stofnfundur félagsins. Síðan er ætlunin að halda fluguhnýtingarkvöld í Borgarnesi og víðar á Vesturlandi ef vilji er til. Þessi kvöld eru öllum opin og viljum við sjá sem flesta. Byrjendur og aðrir áhugasamir eru sérstaklega hvattir til að mæta og kynna sér fluguhnýtingar. Þeir sem vanari eru standa upp frá sínum tækjum og leyfa öðrum að prófa og leiðbeina þeim við hnýtingar. Leitast verður við að fá góða gesti á fluguhnýtingarkvöldin sem gefa þátttakendum góð ráð og innblástur. Einnig er á stefnuskrá félagsins að uppfræða fluguhnýtara með námskeiðum og fyrirlestrum, þar sem jafnvel verða fengnir þekktir hnýtarar til að kenna.“

Þeir Jóhann og Valdimar vonast til að félagið verði með tímanum þekkt og leitað verði til þess eftir fræðslu um fluguhnýtingar eða námskeiðahald. „Félagsgjöldum verður mjög stillt í hóf, félagsgjöldin verða nýtt í að kaupa búnað, efni og fræðsluefni til fluguhnýtingar.“

Jóhann og Valdimar eru spenntir fyrir vetrinum og vonast til að fá góða þátttöku á fluguhnýtingarkvöldin og að sem flestir kynnist þessari rólegu tómstundaiðju sem skerpir einbeitingu, samræmir hreyfingar hugar og handar og er góð núvitund. Fluguhnýtingar henta öllum kynjum og breiðum aldurshópi. Fjölskyldur geta sameinast við fluguhnýtingar, það þarf ekki krafta eða dýrar græjur til að hnýta flugur, hægt er að komast langt með byrjenda setti og góðu ljósi.