Fréttir
Núverandi bæjarstjórn. Þarna eru bæði Michael og Patryk ásamt öðrum bæjarfulltrúum og Kristni bæjarstjóra. Ljósm. SNB

Patryk í bæjarstjórn í stað Michaels

Á fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar 2. september síðastliðinn tók Patryk Zolobow sæti í bæjarstjórn í stað Michael Gluszuk, sem nú er að flytjast búferlum. Patryk starfar sem sjúkraflutningamaður hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Ólafsvík. Hann hefur verið fyrsti varamaður í bæjarstjórn fyrir J-lista, Bæjarmálasamtök Snæfellsbæjar, undanfarin ár ásamt því að sitja í nefndum á vegum bæjarins. Michael var oddviti J-listans í kosningunum 2022. Nú tekur Margrét Sif Sævarsdóttir grunnskólakennari við sem oddviti listans sem á þrjá af sjö fulltrúum í bæjarstjórn, en Sjálfstæðisflokkurinn skipar eins og kunnugt er meirihlutann.