
Stefnt er að því að nýja íþróttahúsið verði vígt á Vökudögum sem eru um mánaðamótin október og nóvember. Ljósm. mm
Stefnt að vígslu nýs íþróttahúss á Jaðarsbökkum á Vökudögum
Þessar vikurnar er unnið að lokafrágangi hins nýja íþróttahúss á Jaðarsbökkum á Akranesi. Líkt og kom fram í Skessuhorni á dögunum, í viðtali við Sigurð Arnar Sigurðsson skólastjóra Grundaskóla, er vonast til þess að kennsla geti hafist í húsinu í lok þessa mánaðar. Ekki hefur endanlega verið ákveðið hvenær hið glæsilega hús verður formlega tekið í notkun en að sögn Haraldar Benediktssonar bæjarstjóra er stefnt að því að vígsla hússins fari fram með formlegum hætti í tengslum við Vökudaga sem fram fara á Akranesi dagana 23. október til 2. nóvember í haust. Er það ekki nema um fimm mánaða seinkun frá upphaflegum áætlunum þegar framkvæmdir hófust.