Fréttir
Fyrstur til að nýta atkvæðisrétt sinn í Borgarbyggð var Þorvaldur Jónsson bóndi á Innri-Skeljabrekku og fyrrum bóndi á Horni í Skorradal, en hann kaus í Ráðhúsinu í Borgarnesi. Innan við borðið er Sóley Sigþórsdóttir.

Kosning hafin um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps

Í morgun hófst íbúakosning um tillögu samstarfsnefndar um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps, en kosningin nær yfir hálfs mánaðar tímabil og lýkur 20. september nk. Kosningaaldur miðast við þá sem náð hafa 16 ára aldri 20. september nk. Skorradalshreppur verður ein kjördeild en í Borgarbyggð verða kjördeildirnar fjórar, þær sömu og í alþingis- og forsetakosningum. Kjósendur geta séð hvort og hvar þeir eiga að kjósa á vef Þjóðskrár.