Íþróttir
Nýi klifurveggurinn er í Íþróttahúsinu við Vesturgötu.

Klifurfélagið tekur nýjan klifurvegg í notkun – opið hús síðdegis á morgun

Allt frá árinu 2018 hefur Klifurfélag ÍA verið með klifurvegg á Smiðjuvöllum á Akranesi en félagið er nú að koma sér fyrir í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Starfsemin á Smiðjuvöllum hefur gengið vel en staðsetningin var ekki talin nógu örugg þar sem um iðnarsvæði var að ræða og þar af leiðandi hættulegt börnum sem fara þurftu yfir tvær hættulegar götur og tvö bílaplön til að komast á æfingar. Sturla Már Guðmundsson, gjaldkerfi í stjórn Klifurfélags ÍA, segir í samtali við Skessuhorn að Þórður Sævarsson eigi allan heiðurinn af því að á Akranesi hefur klifuríþróttin vaxið og dafnað. Hann hafi haft sýnt mjög mikla ástríðu fyrir klifuríþróttinni og viljað að fleiri fengju að kynnast henni.

„Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa þar sem Klifurfélag ÍA getur státað af sex Íslandsmeistartitlum í yngri flokkunum í grjótglímu, allt stelpum, og tveimur í línuklifri. Við í stjórn klifurfélagsins tókum svo við rekstrinum 2022-2023. Það má segja að við séum komin heim þegar við flytjum á Vesturgötuna, en þar byrjaði einmitt Þórður með starfið í kjallara í mjög litlu, eða 15-20 fermetra rými. Akraneskaupstaður viðraði þá hugmynd við okkur síðasta vetur að færa starfsemina á Vesturgötu til að við værum í húsnæði í eigu þeirra, en við höfðum verið í leiguhúsnæði á Smiðjuvöllum fram að því. SF smiðir voru fengnir í að skrúfa niður vegginn á Smiðjuvöllum og setja hann upp á Vesturgötunni. Óhætt er að segja að nýi veggurinn líti mjög vel út. Skipulagðar æfingar þessa haustönnina munu hefjast núna á mánudaginn 8. september nk. en við verðum með opið hús á morgun laugardaginn 6. september kl. 17. Þar er áhugasömum boðið að koma að skoða og prófa nýja klifurvegginn,“ segir Sturla Már.