
Til hægri á myndinni má sjá Vesturbraut sem liggur í gegnum Búðardal. Auðarskóli er fyrir miðju myndarinnar við Miðbraut. Hinum megin Miðbrautar skammt til vinstri stendur ráðhúsið þar sem bókasafnið er til húsa. Myndin er úr safni en eins og sjá má vantar á hana nýja íþróttahúsið.
Grunnskólabörn vilja betri merkingu gangbrauta í Búðardal
Nemendur í 1.-3. bekk Auðarskóla í Búðardal sendu sveitarstjórn Dalabyggðar bréf á dögunum þar sem þau óskuðu eftir betri merkingum á gangbrautum í Búðardal. Kom meðal annars fram í bréfinu að til þess að komast á gangbrautum á bókasafnið sem stendur við Miðbraut, sömu götu og Auðarskóli stendur, þurfi þau að fara tvisvar yfir gangbrautir á Vesturbraut, sem er þjóðvegurinn í gegnum þorpið, þar sem ekki sjást merkingar á gangbraut Miðbrautar.